Veorio

Staoa opnuna

Lög félagsins

Lög skíðafélags Siglufjarðar

1. gr.

Félagið heitir Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg (SSS). Heimili og varnarþing þess er á Siglufirði. Félagið er aðili að Ungmenna- og íþróttasambandi Fjallabyggðar (UÍF), Skíðasambandi Íslands (SKÍ), UMFÍ og Íþrótta-og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ).

Tilgangur og markmið félagsins er að auka skíðaiðkun hjá börnum og unglingum auk þess að glæða áhuga almennings á skíðaíþróttinni.   Félagið er fyrirmyndarfélag ÍSÍ.

Félagar geta allir orðið sem óska aðildar með skriflegri umsókn.

2. gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir félagsmenn.

Aðalfund skal halda í apríl ár hvert og skal boða til hans með þriggja vikna fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal koma fram í fundarboði.

Málefni sem óskað er eftir að tekin verði fyrir á aðalfundi skulu send stjórn SSS eigi síðar en tveim vikum fyrir aðalfund. Fundurinn er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað án tillits til þess hversu margir mæta.

Á fundinum hafa félagsmenn einir atkvæðisrétt og eru þeir kjörgengir til stjórnarkjörs. Greiði félagsmaður ekki félagsgjald í tvö ár í röð fellur hann af félagatali.

3. gr.

Dagskrá aðalfundar er:

1. Setning fundarins

2. Kosning fundarstjórar og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar

4. Framlagning endurskoðaðra reikninga

5. Skýrsla og kosning til foreldraráðs

6. Umræður um skýrslu og reikninga, atkvæðagreiðsla um reikninga.

7. Tillögur að lagabreytingum lagaðar fram svo og tillögur sem borist hafa stjórn

8.  Umræður um lagabreytingatillögur og aðrar tillögur

9. Atkvæðagreiðsla um tillögur.

10. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna

11. Önnur mál

4. gr.

Kosningar skulu vera leynilegar sé þess óskað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu. Fundur getur með 2/3 hluta atkvæða leyft að taka fyrir mál sem komið hafa fram eftir að dagskrá fundarins var send út.

5. gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn, þ.e. formaður, ritari gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Stjórn skal kosin á aðalfundi. Formaður skal kostinn til eins árs í senn en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum. Fulltrúi foreldra og fulltrúi unga fólksins sitja einnig fundi stjórnar.

Einnig skal kjósa einn skoðunarmann reikninga. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. gr.

Stjórn ber að gæta hagsmuna félagsins, iðkenda og félagsmanna. Hún framkvæmir ákvarðanir aðalfundar og hefur umráð með fjármálum og eignum félagsins. Formaður boðar fundi og stjórnar þeim.  

7. gr.

Að hausti ár hvert skal stjórn boða til foreldrafundar þar sem farið er yfir starf vetrarins og þátttaka í mótum. Handók fyrirmyndarfélags ÍSÍ er kynnt foreldrum.  Á foreldrafundi eru þrír fulltrúar foreldra kosnir í foreldraráð til tveggja ára í senn.

8. gr.

Tillögu um slit á félaginu má aðeins taka fyrir á aðalfundi. Samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða þarf til þess að slíta félaginu. Tillaga um slit þarf að koma fram í fundarboði. Sé tillagan samþykkt skal boða til aukaaðalfundar og staðfesta niðurstöðuna. Við slit félagsins skulu eignir þess renna til UÍF.

Tillögu um að sameina félagið öðru félagi má aðeins taka fyrir á aðalfundi. Samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða þarf til að sameina félagið örðu félagi. Tillaga um sameiningu þarf að koma fram í fundarboði. Sé samþykkt að sameina félagið öðru félagi skal boða til aukaaðalfundar til að staðfesta niðurstöðuna. Við sameiningu skulu eignir SSS renna til hins nýja félags.

9. gr.

Að öðru leyti gilda ákvæði laga UÍF, UMFÍ og ÍSÍ um réttindi og skyldur félagsins

Samþykkt á aðalfundi þann 26. maí 2014.

%d bloggers like this: